Félagið
SL-Bandalag sjálfstæðs sviðslistafólks og leikhúsa var stofnað árið 1985 undir heitinu BAAL-Bandalag atvinnuleikhópa, af forsvarsmönnum sex sjálfstæðra leikhópa. Aðalmarkmið bandalagsins var að vinna að lausn á húsnæðisvanda sjálfstæðra leikhópa og að berjast fyrir bættu starfsumhverfi þeirra. Enn í dag starfar bandalagið eftir sömu grunnforsendum og vinnur að bættri aðstöðu og starfsumhverfi sjálfstæðs sviðlistafólks. Í dag eru 54 leikhópar á skrá hjá SL og spanna þeir breitt svið sviðslistanna. Hóparnir vinna allir eftir eigin listrænni stefnu og hefur íslensk leikritun, barnaverk, frumsköpun og tilraunastarfsemi verið í hávegum höfð. Auk þess sem sjálfstæðir leikhópar hafa verið öflugir í útrás íslenskrar sviðslistar.
SL styður síbreytilega starfsemi atvinnuleikhópanna svo þeir geti svarað kalli samtímans með því að bregðast skjótt við samfélagslegum áskorunum og verið sívirk og frjó kvika í listalífinu. Til að geta vænst listrænnar þróunar þarf að búa sviðslistastarfsemi skilyrði til þroska sem byggja á víðtækum rannsóknum og tilraunum á formi sviðslistanna. Frelsi og sköpunarmáttur sviðslista felst í fjárhagslegu sjálfstæði starfseminnar sem er undirstaða þess að atvinnuleikhóparnir geti starfað af samfélagslegri ábyrgð, framsýni og listrænum metnaði.
Árið 2004 réð SL til sín framkvæmdastjóra og starfrækir skrifstofu þar sem hægt er að nálgast upplýsingar um starf leikhópanna og SL auk þess sem leikhópar geta fengið aðstoð við umsóknargerð, fjármögnunarleiðir og margt fleira.
SL stofnaði dótturfélagið Menningarfélagið Tjarnarbíó til reksturs Tjarnarbíó fyrir Reykjavíkurborg og hefur haft frumkvæði að endurreisn leikhússins fyrir sjálfstæða leikhópa. Tjarnarbíó var opnað aftur 1. október 2010 eftir gagngerar endurbætur. www.tjarnarbio.is
SL er aðili að Sviðslistasambandi Íslands, Leikminjasafni, IETM (alþjóðlegt tengslanet sviðslista) og EAIPA (European Association of Inpendent Performing Arts)