Borgarleikhúsið auglýsir eftir samstarfsverkefnum fyrir leikárið 2021-2022
Á hverju leikári býður Borgarleikhúsið a.m.k. tvo sjáfstæða leikhópa velkomna til samstarfs. Verkefni sjálfstæðu leikhópanna eru valin af leikhússtjóra og verkefnavalsnefnd leikhússins og í kjölfarið kynnt hússtjórn Borgarleikhúss og stjórn Sjálfstæðu leikhúsanna (SL).
Samkvæmt samkomulagi Leikfélags Reykjavíkur og Reykjavíkurborgar skal Leikfélag Reykjavíkur tryggja hið minnsta tveimur leikflokkum afnot af húsnæði í Borgarleikhúsinu til æfinga og sýninga eins verkefnis á hverju ári. Leikflokkarnir skulu hafa endurgjaldslaus afnot af húsnæði en greiða útlagðan kostnað LR vegna vinnu þeirra í Borgarleikhúsinu.
Samkvæmt ofangreindu er hér með auglýst eftir umsóknum leikhópa vegna leikársins 2021-2022.
Með umsókn skal senda greinargerð um verkefnið þar sem því er skilmerkilega lýst, greint frá aðstandendum þess, framkvæmdaaðilum, listrænum stjórnendum og öllum þátttakendum. Að auki skal ítarleg fjárhagsáætlun fylgja umsókninni.
Umsóknarfrestur er til kl. 17 miðvikudaginn 27. janúar 2021 og skulu umsóknir sendar í tölvupósti á netfangið samstarf@borgarleikhus.is
Einnig má senda umsóknir bréfleiðis og skulu þá berast leikhússtjóra Borgarleikhússins, Listabraut 3, 103 Reykjavík.