Umsögn SL um frumvarp til laga um tekjufallsstyrki


Posted on október 24th, by leikhopar1 in Frettir. No Comments

0 Flares Filament.io 0 Flares ×

Sjálfstæðu leikhúsin fagna því að með þessu frumvarpi birtist skýr vilji til að styðja við einyrkja í listum og menningu í ástandi sem gerir þeim verulega erfitt fyrir. Stjórn SL hefur kynnt sér inntak frumvarpsins og reynt að leggja mat á þann stuðning sem sviðslistafólk mun geta sótt verði ákvæði þess að lögum. Niðurstaða okkar að gera þurfi nokkrar veigamiklar breytingar til að það gagnist einyrkjum og litlum fyrirtækjum í sviðslistageiranum. Í þessu samhengi er nauðsynlegt að horfa til þess að fyrri úrræði stjórnvalda til að styðja fólk í gegnum þessar þregningar hafa ekki nýst sjálfstætt starfandi listafólki sem skyldi. Fyrir því eru margar ástæður en einfalda svarið liggur í afar flóknu starfsumhverfi listamanna; tekjurnar eru sveiflukenndar, bæði innan ársins og milli ára, margir starfa sem launþegar að hluta og sjálfstæðir rekstraraðilar að hluta, ýmist á eigin kennitölu eða undir hatti einkahlutafélaga eða samlagsfélaga og ákveðinn hluti gerir reksturinn upp einu sinni á ári.

Frumvarpið er fyrir einstaklinga
Frumvarpið er greinilega samið til að ná utan um einstaklinga í rekstri. Þó talað sé um lítil fyrirtæki í texta frumvarpsins og kynningu á því nær það ekki utan um menningarfélög, sem flestir atvinnuleikhópar eru. Sviðslistafólki hefur gjarnan verið ráðagt að stofna menningarfélag/almennt félag utan um rekstur sinn, bæði af ráðuneyti menningarmála og Skattinum. Þetta er líklega vegna þess að reksturinn er ekki stöðugur yfir árið, heldur er umsvifalítill milli uppsetninga eða sérstakra verkefna félagsins. Hugsanlegt er að einhverjir atvinnuleikhópar séu skráðir sem fyrirtæki með ótakmarkaða skattskyldu, en það er þá undantekning og nær öruggt að 3ja launamanna hámarkið sem kveðið er á um í frumvarpinu útiloki þá frá þeim stuðningi sem hér er boðaður.

Lítil fyrirtæki í sviðslistum falla utan ramma
Bjarni Benediktsson kynnti þetta frumvarp sem einn þátt í þríþættri lotu. Fyrst liður hafi verið lokunarstyrkir, en þeir voru ekki í boði fyrir lítil leikhús eða atvinnuleikhópa og sömu sögu má segja um hlutabótaleiðina. Þetta frumvarp er annar liðurinn og nær heldur ekki til lítilla leikhúsa og atvinnuleikhópa. Þeir aðilar sem ráðherra nefnir sérstaklega í samhengi við þetta þriðja úrræði eru:

„þeir sem hafa þurft að sæta ýmiss konar takmörkunum eða íþyngjandi sóttvarnarráðstöfunum sem haft hafa veruleg áhrif á reksturinn. Þeim hefur ekki verið gert að loka og falla þess vegna ekki undir lokunarstyrkina. Þessir aðilar eru með umfangsmeiri rekstur en þann sem við erum að tala um hér, hafa þurft að gera mjög miklar ráðstafanir, t.d. vegna fjöldatakmarkana inni á, segjum veitingastöðum og öðrum slíkum stöðum. Við þurfum að halda áfram að vinna úr hvernig við ætlum að koma til móts við þá.”

Félagasamtök falli undir næstu úrræði
Það er gott að þriðji þátturinn sé í smíðum og afar brýnt að undir það úrræði falli félagasamtök með einhverjum hætti. Frumvarp þar að lútandi þarf að líta dagsins ljós sem allra fyrst. Lítil leikhús og atvinnuhópar í sviðslistum eru almennt félög sem hafa því ekki ótakmarkaða skattskyldu en hafa orðið fyrir algjöru tekjufalli síðan fyrstu samkomutakmarkanir voru settar á í mars sl. Á meðan íþyngjandi sóttvarnarráðstafanir og samkomutakmarkanir eru við lýði munu þessir sömu hópar vera í mjög erfiðri stöðu. Þeir höfðu stofnað til skuldbindinga vegna verkefna sem voru á dagskrá en þurfti að stöðva vegna samkomutakmarkana. Sem dæmi má nefna að á mánaðartímabili frá miðjum mars fram í miðjan apríl voru í Tjarnarbíói 19 atvinnuleikhópar sem töpuðu tekjum að upphæð 40-50 milljónir króna. Gera má ráð fyrir að amk. 60% þeirrar upphæðar hafi átt að fara í launakostnað en 30-40% í aðrar skuldbindingar. Við þetta tap bætist svo kostnaður við að gangsetja verkefni á nýjan leik þegar samkomuhöftum verður aflétt. Verkefnin sem þessir hópar standa fyrir þarf að æfa aftur að hluta og kynna & markaðssetja á nýjan leik með tilheyrandi kostnaði, að því gefnu að allir þeir sem störfuðu við verkefnið séu tiltækir til að koma til starfa á nýjan leik og að húsnæði og búnaður sé til reiðu en slíkt er alls óvíst. Þetta hangir svo allt á því að almenningur sé farinn að treysta því að óhætt sé að sækja menningarviðburði.

Vankantar á úrræðum frumvarpsins
400 þús. kr. eru mjög lág efri mörk. Sú tala virðist úr lausu lofti gripin og ekki fæst séð nauðsyn þess að hafa hana svo lága enda líkur á að einhverjir skattar verði greiddir af þessari upphæð þó einhver munur geti verið á hve miklir eftir rekstrarformi. Eðilegra væri að miða við sama hámark og í lögum um uppsagnarstyrki (633 þúsund vegna launa og 85 þúsund vegna hluta launagreiðanda í lífeyrissjóðsgjöldum) eða að minnsta kosti við viðmiðunarlaun Skattsins, en þau eru í flokki C6 548.000 kr.

Úrræði frumvarpsins eru afar óheppilega uppsett fyrir þá sem voru með skertar tekjur á viðmiðunartímabili laganna, t.d. vegna fæðingarorlofs, náms, veikinda eða annars. Þess vegna er nauðsynlegt að miða hið minnsta við meðaltal byggt á árstekjum 2019.

Það er kærkomið að nú komi loksins fram úrræði sem eiga að styðja við sjálfstætt starfandi sviðslistafólk. Líklega verður aldrei hægt að ná utan um alla en þessum lögum þarf að fylgja eftirlit með því hvernig þau ná að styðja þann hóp sem þeim er ætlað að hjálpa.

Að síðustu verður að gera ráð fyrir því að þessar aðgerðir verði framlengdar, enda ljóst að samkomutakmarkanir í október hafa stöðvað á ný þá fáu listviðburði sem byrjað var að bjóða uppá. Bjarni Benediktsson gerði það að umtalsefni í ræðu sinni að hugsanlega yrði úrræðið framlengt til að ná yfir október. Hvað sviðslistafólk snertir er það brýn nauðsyn og raunar bjartsýni að ætla að sá eini mánuður dugi til. Það er því nauðsynlegt að hægt sé að framlengja þetta tímabil í skömmtum eftir því hvernig aðstæður þróast í samfélaginu.

Athugasemdir við frumvarp til laga um tekjufallsstyrki
1. Fremur en að mæta því verulega tekjufalli sem einstaklingar og hópar í listum sannarlega urðu fyrir á tímabilinu apríl til september 2020 (og verða enn) með beinum hætti þá er frumvarpinu gert að bæta að hluta rekstrarkostnað einstaklinga og lítilla hópa á því tímabili. Það má leiða að því líkum að atvinnulistafólk sem sá fram á- og upplifði þá miklu tekjuskerðingu sem varð, hafi dregið saman seglin í upphafi tímabilsins. Þannig hafi einstaklingar dregið verulega- og jafnvel alveg úr reiknuðu endurgjaldi sínu, enda engu slíku til að dreifa, jafnvel leitað á náðir hins opinbera í formi atvinnuleysisbóta. Því er ólíklegt að um verulegan rekstrarkostnað sé að ræða á viðkomandi tímabili. Lögin heimila vissulega að miðað sé við reiknað endurgjald sama tímabils árið 2019 en á því eru vankantar:

a) Rekstrarumhverfi atvinnumanna í listum er með fádæmum óstöðugt. Listamenn innheimta gjarnan tekjur sínar í „hollum“ og geta þær því dreifst afar ójafnt yfir árið eftir verkefnastöðu.
b) Stór hluti atvinnumanna í listum gerir upp tekjur sínar á ársgrundvelli og mörgum er ókunnugt um skyldur til staðgreiðslu þegar ákveðnum tekjuviðmiðum er náð. Upplýsingar um dreifingu tekna yfir árið kunna því að gefa skakka mynd af raunverulegu tekjuflæði.
c) Vegna þess hve rekstrarumhverfi atvinnumanna í listum er óstöðugt má vel hugsast að reiknað endurgjald ársins 2019 gefi með engu móti raunsanna mynd af tekjufalli ársins 2020. Þannig getur listamaður sem nýlega hefur snúið til lausamennsku (e. Freelance) hafa séð fram á urmul verkefna á umræddu tímabili ársins 2020 sem öll hafa glatast, jafnvel þótt tekjur af sjálfstæðri atvinnustarfsemi hafi verið litlar sem engar á árinu 2019.

2. Skv. frumvarpinu eru styrkir háðir fjölda launamanna og stöðugildum. Þetta nær ágætlega til einstaklinga en ekki atvinnuleik- og listahópa. Atvinnuleik- og listahópar starfa iðulega aðeins hluta úr ári, þ.e. á meðan undirbúningi, æfingum og sýningartíma stendur. Stór hluti kostnaðar hópanna eru verktakagreiðslur og eru mörg dæmi um hópa sem þurftu að standa við gerða samninga um verktakagreiðslur jafnvel þótt tekjufallið væri mikið og stundum algjört á umræddu tímabili. Þessir hópar eru oftast reknir sem menningarfélög (almenn félagasamtök) með fáum eða engum föstum launamönnum eða stöðugildum, enda rekstur þeirra milli verkefna tekjulaus og rekinn í sjálfboðavinnu aðstandenda.

3. Skv. frumvarpinu er gert ráð fyrir einyrkjum eða félögum með ótakmarkaða skattskyldu skv. 1. eða 2. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Með þessu verður fjöldi atvinnuleik- og listahópa útundan, auk ýmissar mikilvægrar starfsemi á sviðum lista og menningar. Mikil fjöldi atvinnuhópa og tengdrar starfsemi í listum og menningu er rekinn sem almenn félagasamtök, sem er það næsta sem íslenskur félagaréttur kemst fyrirbærinu „Non-Profit Organization“. Þetta hefur þótt eðlilegt umhverfi slíkrar starfsemi þar sem hún er í fæstum tilvikum rekin í hagnaðarskyni, heldur eingöngu til að standa undir þeim verkefnum sem félögin taka sér á hendur. Auk þess er íslenskur félagaréttur flókið fyrirbæri og fáir á sviði sjálfstæðra lista og menningar sem hafa bolmagn í sækja sér þá faglegu aðstoð sem þarf til að stofna flóknari sjálfstæða lögaðila, hvað þá að standa undir þeim ríku skyldum sem lagðar eru á slík félög um eigið fé, endurskoðun o.fl. Ef ætlunin með þessum lögum er að ná almennilega til sjálfstæðra lista og menningar á Íslandi verður að taka almenn félagasamtök með.

4. Skv. frumvarpinu mega að hámarki vera þrír launamenn svo viðkomandi rekstraraðili eigi rétt á styrkjum. Aftur nær þetta ágætlega yfir einstaklinga en með þessu verða margir sjálfstæðir leikhópar og önnur mikilvæg starfsemi á sviðum lista og menningar útundan. Hópar og starfsemi sem ekki hafa fallið undir önnur úrræði hins opinbera og hafa beðið langeyg eftir sértækum úrlausnum til handa listum og menningu. Hjá þessum rekstraraðilum eru gjarnan margir launamenn en hver í lítilli stöðu, þ.e. mikið um hlutastörf. Með þessari þröngu skilgreiningu verða lítil sjálfstæð leikhús á borð Tjarnarbíó, Gaflaraleikhúsið og Kómedíuleikhúsið útundan, sem og sjálfstæðir leikhópar á borð við Leikhópinn Lottu.

Breytingartillögur
Almenn félagasamtök þurfa að falla undir lögin sem gjaldgengir rekstraraðilar sé þessum lögum ætað að styðja við aðra aðila í sviðslistum en einstaklinga. Þannig þyrfti að bæta við 1. gr. frv. Sem hér segir:

1. gr.

Gildissvið
Lög þessi gilda um einstaklinga og lögaðila sem stunda tekjuskattsskyldan atvinnurekstur eða

sjálfstæða starfsemi, hófu starfsemina fyrir 1. apríl 2020 og bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi skv. 1. eða 2. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003.Lögin gilda einnig um almenn félagasamtök. Lögin gilda ekki um stofnanir, byggðasamlög eða fyrirtæki í eigu ríkis eða sveitarfélaga.

Til að lítil leikhús og atvinnusviðslistahópar falli undir þetta úrræði þarf að taka út skilyrði um að rekstraraðili megi ekki hafa verið með meira en þrjá launamenn. Frumvarpið segir nú þegar að hafi rekstraraðili fengið lokunarstyrki samkvæmt lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru þá dragist hann frá tekjufallsstyrk, auk skilyrða um sannanlegt tekjufall á tímabilinu. Því væri ekki hætta á að brottfall þessa hámarks myndi leiða til misnotkunar rekstraraðila, sé hámark styrkja samræmt milli lokunar- og tekjufallsstyrkja. Tillagan er því að fella texta út úr 4. gr. frv. 3. tölulið sem hér segir:

4. gr.

Skilyrði

3. Að hámarki þrír launamenn störfuðu við rekstur hans 31. mars 2020.

Líkt og með lokunarstyrki ætti að miða við fasta upphæð fyrir hvern mánuð viðkomandi tímabils. Sú upphæð margfaldast m.v. fjölda stöðugilda og/eða ​rekstrarkostnað upp að tilteknu hámarki sem samræma ætti við lokunarstyrki. Með þessu móti er bæði tekið tillit til hefðbundins launakostnaðar/reiknaðs endurgjalds og verktakagreiðslna sem rekstraraðili þurfti að inna af hendi. Þannig skyldi ekki miðað eingöngu við fjölda launamanna og stöðugildi. Tillagan er eftirfarandi breytingar og viðbætur við 5. gr. frv. 1. mgr. svo sem hér segir:

5. gr.

Fjárhæð
Fjárhæð tekjufallsstyrks skal vera jafnhá rekstrarkostnaði rekstraraðila tímabilið 1. apríl til 30.

september 2020. Tekjufallsstyrkur getur þó ekki orðið hærri en 800 þús. kr.fyrir hvert stöðugildi og/eða rekstrarkostnað vegna verktaka sem störfuðuá mánuði hjá rekstraraðila á sama tímabili, þó að hámarki 2,4 millj. kr. á hvern rekstraraðila.

Hafi rekstraraðili fengið stuðningslán má tekjufallsstyrkur ekki vera svo hár að samanlögð fjárhæð hans og lánsins verði hærri en hámarksfjárhæð stuðningsláns skv. 1. mgr. 11. gr. laga um stuðningslán nr. 38/2020.

Stjórn SL tekur undir athugasemd SAFAS (Samráðsvettvangs fagfélaga sviðslistafólks innan Sviðslistasambands Íslands) þess efnis að stærstur hluti tekna listamanna verði til á vetrarmánuðum hvers árs en ekki á viðmiðunartímabilinu sem frv. gerir ráð fyrir (apríl til sept.). Því leggjum við til að heimilað verði að taka mið af meðalárstekjum rekstraraðila við útreikning tekjufallsstyrks. Þannig þyrfti að bæta setningu við 5. gr. frv. 2. mgr. svo sem hér segir:

5. gr.

Fjárhæð
Í stað þess að telja til rekstrarkostnaðar reiknað endurgjald fyrir tímabilið 1. apríl til 30. september 2020

er rekstraraðila heimilt að reikna til rekstrarkostnaðar á því tímabili sömu fjárhæð og hann gjaldfærði vegna reiknaðs endurgjalds á tímabilinu 1. apríl til 30. september 2019, eða á fyrstu sex heilu almanaksmánuðum sem hann starfaði, hafi rekstur hafist eftir 1. apríl 2019.Búi rekstraraðili við miklar tekjusveiflur í meðalári þannig að ljóst þyki að fyrrgreind viðmiðunartímabil endurspegli ekki tekjuöflun hans alla jafna er rekstraraðila heimilt að reikna til rekstrarkostnaðar ígildi meðaltals áranna 2018-2019 og myndi það grundvöll styrkfjárhæðar. Hafi rekstraraðili fengið atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. apríl til 30. september 2020 dragast þær frá þannig reiknuðum rekstrarkostnaði.

Stjórn SL tekur einnig undir athugasemd SAFAS um ákvæði 4. gr. 1. tl. um 50% tekjufall sem skilyrði tekjufallsstyrks. ​Þar sem lagt er til að hafa þetta hlutfall tekna lægra og leggjum til að því verði breytt í 40%, að því gefnu að breytingartillaga um viðmiðunartímabil verði samþykkt, verði henni hins vegar hafnað þá þyrfti að lækka hlutfallið í 30%. Þar vegur þyngst sú staðreynd að ​nokkur hluti svarenda í könnununum BHM sem SAFAS leggur til grundvallar áliti sínu sé með útborgaðar tekjur undir framfærsluviðmiði auk þess sem meirihluti sjálfstætt starfandi segist ekki munu geta staðið undir fjárhagslegum skuldbindingum á næstunni og jafnframt hafa litla von um tekjuöflun samhliða væntum samkomutakmörkunum vetrarins. Tillaga okkar að breytingu 1. tl. 4. gr. er því eftirfarandi:

4. gr.

Skilyrði
1. Tekjur hans á tímabilinu 1. apríl til 30. september 2020 voru a.m.k.
40%lægri en á sama tímabili 2019

og tekjufallið má rekja til heimsfaraldurs kórónuveiru eða ráðstafana stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hennar .

Að lokum vil ég þakka fyrir tækifærið til að hitta nefndina að máli og fylgja umsögn þessari eftir.

Virðingarfyllst,
f.h. Bandalags sjálfstæðra leikhúsa – SL Orri Huginn Ágústsson
formaður

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.Fréttir

Fréttir og tilkynningar úr starfi sjálfstæðra sviðslistahópa. Sendið okkur póst á leikhopar@leikhopar.is

Listafólk í fókus – Taktu þátt

Ný netfundaröð EAPIA „Listafólk í fókus“ hefst fimmtudaginn 9. nóvember.

EAIPA – Evrópusamtök sjálfstæðs sviðslistafólks efnir til spennandi dagskrár og beinir sjónum sínum að listafólki, aðbúnaði þess og aðstöðu með...

Umsögn SL um fjárlög 2024

Hér að neðan er birt umsögn SL um fjárlög 2024, en einnig er hægt að nálgast umsögnina á vef Alþingis hér.

Sjálfstæðu leikhúsin óska eftir:

●...

Sjálfstæðar sviðslistir í Evrópu – Stofnun og afkoma vaxandi geira

Út er komin yfirgripsmikil rannsókn um sjálfstæðar sviðslistir í Evrópu Independent Performing Arts in Europe: Establishment and Survival of an Emerging Field. Bókin er...