Til bjargar listinni: ákall til stjórnvalda


Posted on apríl 7th, by leikhopar1 in Frettir. No Comments

0 Flares Filament.io 0 Flares ×

Þetta ákall var upprunalega ritað af alþjóðlegu sviðslistasamtökunum IETM og undirritað af Circostrada, ETC, IN SITU og EDN.

Síðan kórónufaraldurinn braust út hefur gríðarstór hluti jarðarbúa – fólk af ýmsum uppruna, á öllum aldri og af öllum stigum samfélagsins – þurft að horfast í augu við skyndilega og ótímabundna frestun á sínu daglega lífi. Fundir fólks í raunheimi eru sjaldgæfir og þurfa að lúta ýmsum takmörkunum. Sumir standa frammi fyrir óvæntum fjárhagsvandræðum og aðrir kljást við líkamleg og andleg veikindi. Allt þetta aukna álag í samfloti við nagandi óvissu um framtíðina, skapar gríðarlega spennu og mun setja varanlegt mark á allt samfélagið.

Eins og oft á umbrotatímum, snýr fólk sér að menningunni: bókmenntir, tónlist, kvikmyndir, ljósmyndun, sýndarlistasöfn, dans og leikhús hafa flutt yfir á netið eða út undir bert loft, þar sem fjarlægðartakmarkanir eru virtar. Listin sýnir statt og stöðugt hversu einstakan mátt hún hefur til þess að sameina fólk, jafnvel á tímum þar sem ómögulegt er að vera bókstaflega á sama stað. Menning stuðlar að andlegri vellíðan, hvetur til skapandi lausna og blæs krafti í brjóst þeirra sem finna fyrir vonleysi. Listirnar gera okkur kleift að setja raunveruleikann í samhengi, að horfa á hann gagnrýnum augum og sjá fyrir okkur betri tíð, jafnvel í þessari óyfirstíganlegu óvissu. Við stöndum við þröskuld nýs raunveruleika og það er í okkar höndum að finna styrk hjá okkur sjálfum til að umbreyta þessum erfiðleikum og opna dyr að betri framtíð. Menning er án nokkurs vafa hluti af lausninni.

Á sama tíma hefur menningargeirinn og þá sérstaklega sviðslistir, verið fyrstar undir hnífinn þegar kemur að aðgerðum til að stemma stigu við útbreiðslu COVID-19. Þar að auki verða þær að öllum líkindum einna síðastar til að snúa aftur til reglulegrar starfsemi, þegar ríkisstjórnir heimsins draga úr aðgerðum til að hefta útbreiðslu veirunnar. Þannig hefur þetta upplausnarástand, sem aðeins hefur staðið yfir í örfáar vikur, nú þegar lagt lífsviðurværi milljóna sjálfstætt starfandi listafólks og smærri menningarfélaga í mikla hættu.

Kórónuveiru-faraldurinn hefur haft skaðleg áhrif á viðkvæmt vistkerfi sviðslistageirans, sem einkennist af miklum fjölda sjálfstætt starfandi fagfólks. Bótakerfið er ekki sniðið að þörfum lausráðinna, verktaka og þeirra sem sinna tímabundnum verkefnum eins og raunin er með meirihluta þeirra sem starfa við sviðslistir. Enn fremur brestur faraldurinn á á mikilvægum tíma ársins hvað tekjur varðar. Vorin eru blómlegur tími með tilliti til árlegrar innkomu menningarfélaga, listahátíða og fagfólks.

Listamenn á alþjóðavísu hafa sýnt mikla samstöðu og hugmyndaauðgi á þessum fordæmalausu tímum. Samt sem áður er augljóst að það fellur í hlut stjórnvalda að koma menningargeiranum til bjargar – verðmætri félagslegri auðlind sem leggur svo sannarlega sitt á vogarskálar atvinnulífsins.

Við skorum því á stjórnvöld að grípa til eftirfarandi ráðstafana, bæði í ljósi brýnna aðstæðna dagsins í dag og jafnframt með langtímaafkomu menningargeirans í huga:

  • Veita listafólki og öðru fagfólki innan menningargeirans aðgang að atvinnuleysisbótum og félagslegum bótum til að bæta upp tap af völdum COVID-19 faraldursins.
  • Styðja menningu og listir í gegnum Viðbragðssjóð Evrópusambandsins við faraldri kórónuveiru (e. EU Coronavirus Response Investment Initiative[1]).
  • Stofna neyðarsjóði fyrir menningargeirann, utan þeirra fjárúthlutana sem nú þegar eru til staðar hjá menningarmálaráðuneytum og miðstöðvum lista. Slík bjargráð skuli renna úr öðrum sjóðum sem sérstaklega eru ætlaðir til að draga úr afleiðingum COVID-19 ástandsins.
  • Auka sveigjanleika allra núverandi styrkja til að gera styrkþegum kleift að ákveða hvort þeir vilji fresta, aflýsa eða breyta verkefnum, eða lengja tímaramma hins styrkta verkefnis.
  • Auka við framlag til lista og menningar árið 2020 sem og í náinni framtíð, með það að markmiði að vekja geirann til lífs á ný og gera hann sjálfbæran.
  • Varðveita fjármagn til alþjóðlegs samstarfs, en það skipar mikilvægan sess í því að styrkja stoðir listageirans og stuðla að áframhaldandi þróun innan hans.
  • Stofna til yfirgripsmikillar umræðu um núverandi stöðu listafólks með það að leiðarljósi að tryggja sjálfbærni hjá bæði listamönnum, innan stakra verkefna og í annarri tengdri starfsemi. Þar er tilvalið tækifæri til að vekja athygli á tjáningarfrelsi, félagslegri og fjárhagslegri afkomu, sem og vellíðan einstaklinga.
  • Rannsaka möguleikann á því að stofna til borgaralauna til að verja fólk gegn framtíðaráföllum og forsendubresti.
  • Innlima menningu og listir inn í framtíðaráætlanir um viðreisn efnahags og félagsmála. Þannig má veita stéttinni réttmæta viðurkenningu, bæði fyrir hlutverk sitt í velferð borgara og fyrir óvefengjanlegan sameiningarmátt sinn, jafnvel á tímum þegar ómögulegt er að safnast bókstaflega saman.

Við krefjumst þess að ofantalin úrræði verði nýtt til styrkingar menningar- og listalífs í hvívetna (í samhengi við önnur bjargræði innan þjóðfélagsins). Enn fremur viljum við að það sé gert í virku og opnu samtali við listafólk og stjórnendur innan menningar og lista.

[1] Á við um ríki með aðild að Evrópusambandinu (auk Bretlands).

Íslensk þýðing: Bryndís Ósk Ingvarsdóttir





Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.



Fréttir

Fréttir og tilkynningar úr starfi sjálfstæðra sviðslistahópa. Sendið okkur póst á leikhopar@leikhopar.is

Launatölur vegna umsókna í Sviðslistasjóð og listamannalaun 2024

Nokkuð er um spurningar þegar kemur að launatölum í umsóknum. Áhersla skal lögð á sanngjarna þóknun miðað við vinnuframlag og SL hefur lagt áherslu...

Listafólk í fókus – Taktu þátt

Ný netfundaröð EAPIA „Listafólk í fókus“ hefst fimmtudaginn 9. nóvember.

EAIPA – Evrópusamtök sjálfstæðs sviðslistafólks efnir til spennandi dagskrár og beinir sjónum sínum að listafólki, aðbúnaði þess og aðstöðu með...

Umsögn SL um fjárlög 2024

Hér að neðan er birt umsögn SL um fjárlög 2024, en einnig er hægt að nálgast umsögnina á vef Alþingis hér.

Sjálfstæðu leikhúsin óska eftir:

●...