MTB
LÖG MENNINGARFÉLAGSINS TJARNARBÍÓ – MTB
1. grein
Félagið heitir Menningarfélagið Tjarnarbíó, skammstafað MTB.
2. grein
Heimili félagsins og varnarþing er í Tjarnarbíói, Tjarnargötu 12, 101 Reykjavík.
3. grein
Tilgangur og markmið félagsins er:
a. Að reka leikhús í Tjarnarbíói í samræmi við samkomulag Reykjavíkurborgar og MTB um rekstur Tjarnarbíós.
b. Efla starfsemi sjálfstætt starfandi sviðslistahópa og einstaklinga.
4. grein
MTB vinnur að markmiði sínu með því að:
a. Starfrækja leikhús í Tjarnarbíói, þar sem verk sjálfstætt starfandi sviðslistafólks eru í fyrirrúmi.
b. Taka þátt í umræðu og stefnumörkun í sviðslistum.
5. grein
Menningarfélagið Tjarnarbíó er eign SL – sjálfstæðu leikhúsanna og starfar í umboði þess. Félagar eru allir fullgildir félagar í SL – sjálfstæðu leikhúsunum og jafngildir innganga í SL inngöngu í MTB.
6. grein
Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum MTB. Aðalfundur skal haldinn ár hvert eigi síðar en fyrir lok október. Skal til hans boðað með tryggilegum hætti og með tveggja vikna fyrirvara og telst hann þá löglegur. Atkvæðisrétt á aðalfundi hafa allir fullgildir félagar.
7. grein
Á aðalfundi skulu eftirfarandi mál tekin til meðferðar:
1. Skýrsla stjórnar um liðið starfsár
2. Endurskoðaðir reikningar félagsins, en reikningsárið er leikárið
3. Lagabreytingar
4. Kosning stjórnar
5. Starfsáætlun komandi starfsárs
6. Önnur mál
8. grein
Lögum félagsins verður aðeins breytt á aðalfundi. Breytingartillögur skulu fylgja aðalfundarboði. Þær skoðast samþykktar, ef þær hljóta 2/3 hluta greiddra atkvæða fundarmanna. Um almenn mál ræður meirihluti atkvæða úrslitum.
9. grein
Stjórn félagsins skal kosin á aðalfundi og skipuð þremur aðalmönnum og einum varamanni. Kjörtími stjórnarmanna og varamanns er tvö ár. Stjórn skiptir með sér verkum. Allir fullgildir félagar í SL geta boðið sig fram til setu í stjórn fyrir utan stjórnarmenn í SL. Engir tveir stjórnarmenn mega koma frá sama leikhúsi/leikhópi.
10. grein
Stjórn félagsins stýrir málefnum þess milli aðalfunda. Stjórninni er heimilt að ráða leikhússtjóra. Stjórnin ákveður laun leikhússtjóra og ráðningarkjör og gerir við hann ráðningarsamning. Allar meiriháttar ákvarðanir skulu bornar undir almennan félagsfund og skal til hans boðað á sama hátt og til aðalfundar.
11. grein
Stjórn fer með öll málefni félagsins milli aðalfunda og ber ábyrgð á rekstri þess. Undirskrift tveggja stjórnarmanna skuldbindur félagið. Stjórnin skal ásamt leikhússtjóra bera ábyrgð á verkefnavali samkvæmt gildandi starfsreglum MTB.
12. grein
Stjórn heldur fundi einu sinni í mánuði að jafnaði. Þar skal fjallað um rekstur félagsins og leikhússtjóri gefur skýrslur um starfsemina, fjárhagsstöðu, horfur og mál sem unnið hefur verið að milli funda. Formaður SL situr fundi stjórnar MTB sem áheyrnarfulltrúi með tillögurétt eða varamaður í hans stað.
13. grein
Leikhússtjóri fer með og ber ábyrgð á: fjármálastjórn, áætlanagerð, verkstjórn, starfsmannastjórn og markaðsmálum. Leikhússtjóri hefur með höndum stjórn á daglegum rekstri og annast ráðningu annarra starfsmanna í samráði við stjórn. Stjórnin veitir leikhússtjóra prókúruumboð fyrir félagið. Hann skal sjá um að bókhald sé fært í samræmi við lög og venjur og að meðferð eigna sé með tryggilegum hætti. Leikhússtjóra ber að veita stjórn og endurskoðendum allar þær upplýsingar um rekstur félagsins sem þeir kunna að óska eftir.
14. grein
Ákvörðun um slit félagsins verður einungis tekin á aðalfundi félagsins með 2⁄3 hluta greiddra atkvæða. Við slit skulu eignir félagsins renna til SL–sjálfstæðu leikhúsanna.
Samþykkt á stofnfundi MTB fimmtudaginn 26. ágúst 2010.
Breytingar samþykktar á aðalfundi MTB 18. nóvember 2019, 7. júní 2022 og 16. október 2023.