Umsögn SL um fjárlög 2024


Posted on nóvember 3rd, by leikhopar1 in Frettir. No Comments

0 Flares Filament.io 0 Flares ×

Hér að neðan er birt umsögn SL um fjárlög 2024, en einnig er hægt að nálgast umsögnina á vef Alþingis hér.

Sjálfstæðu leikhúsin óska eftir:

●  Að framlag til starfsemi atvinnuleikhópa á fjárlögum 2024 verði hækkað úr 106,9 millj.kr. í 161 milljón hið minnsta.

Forsendur hækkunar:

●  Sjálfstæðir sviðslistahópar frumsýna yfir 60% allra sýninga í íslensku sviðslistaumhverfi.

●  Sjálfstæðir hópar eru í fararbroddi þegar kemur að nýsköpun og kynningu á nýjum íslenskum sviðslistaverkum innan lands sem utan.

●  Sjálfstæðar sýningar standa jafnfætis stofnanabundnum leikhúsum að fagmennsku og gæðum.

●  Fjárveitingar til sjálfstæðra hópa eru einungis um 8% af því fjármagni sem hið opinbera veitir til sviðslista.

●  Sjálfstætt starfandi sviðslistafólk er tilneytt að greiða sér ~30-50% lægri laun að meðaltali en sviðslistafólk með sömu menntun og reynslu í stofnanaleikhúsum.

SL-Bandalag sjálfstæðs sviðslistafólks og leikhúsa gerir athugasemdir við frumvarp til fjárlaga 2024, eins og það liggur fyrir Alþingi. Frumvarpið gerir ráð fyrir 54,1 millj.kr. niðurskurði á framlögum til Sviðslistasjóðs milli ára, sem stríðir gegn markmiðum um eflingu þeirra lögbundnu sjóða sem styðja við listir og menningu. Yfirlýst markmið stjórnvalda er aðstyrkja sjóðakerfi menningar og lista með það að markmiði að starfslauna- og verkefnasjóðir tryggi betur afkomu þeirra sem starfa í listum, m.a. með raunsærri viðmiðum. Hlutverk menningarsjóðanna er að stuðla að faglegri og sjálfstæðri listastarfsemi og samfellu hennar, slíkt verður einungis gert með raunsæjum stuðningi.

SL óskar eftir því að breyting verði gerð á frumvarpinu þannig að framlag til starfsemi atvinnuleikhópa 2024 (16-295-124) verði hið allra minnsta það sama og veitt var til starseminnar við síðustu fjárlagagerð, eða 161 millj.kr.

Ef markmið þessara fjárlaga er að hverfa aftur til framlaga eins og þau voru fyrir Covid þá þyrfti sjóðurinn engu að síður um 130 millj.kr. til þess eins að halda verðgildi. Þá hefur stjórnvöldum um langa hríð verið bent á að framlög til þessa geira eru langt undir raunþörf. Sérstök 50 millj.kr. úthlutun síðasta árs eyrnamerkt sviðslistafólki undir 35 ára aldri var kærkomin viðbót og skammsýni að ekki standi til að endurtaka það.

Jafnframt óskar SL eftir skilningi þingmanna á því að starfsumhverfi sviðslistafólks ákvarðast af framlögum ríkissjóðs til málaflokksins. Hvergi í heiminum er blómlegri sviðslistasenu haldið úti án framlaga úr opinberum sjóðum. Þegar við þetta bætist lögbundin krafa um samstarf Þjóðleikhússins og Íslenska dansflokksins við sjálfstætt starfandi listafólk sést glöggt að grunnforsenda þess að rækta hér krafmikinn sviðslistageira er að styðja við sjálfstæða sviðslistageirann með myndarlegum hætti. Með lítilli aukningu væri stigið stórt skref í þá átt að auka fyrirsjáanleika og samfellu í starfi sviðslistafólks, sú fjárfesting skilar sér margfalt til baka með beinum og óbeinum hætti.

Fjölbreyttur og vaxandi geiri í alvarlegri stöðu

Staða sjálfstætt starfandi sviðslistafólks er grafalvarleg og sú framtíðarsýn sem þetta frumvarp inniber fyrir þann hóp er því miður ekki björt. Sérhæft starfsfólk með kostnaðarsamt nám að baki hefur um fáa kosti að velja í núverandi landslagi. Sá hópur sem starfar að sviðslistum án ráðningarsambands við stofnanir hefur farið ört vaxandi og mun gera áfram. Fyrir því eru ýmsar ástæður á borð við vaxandi sérhæfingu og fjölbreytni í geiranum, hagræðingarkröfur á stofnanabundin leikhús, samhliða aukinni nýliðun í geiranum en Listaháskóli Íslands útskrifar að jafnaði 30 einstaklinga í sviðslistum árlega (leikara, dansara, sviðshöfunda). Háskólanám í sviðslistum er kostnaðarsamt og til að sú fjárfesting leiði til verðmætasköpunar í íslensku samfélagi þarf öflugur starfsvettvangur að taka við fólki að námi loknu, ella horfum við upp á áframhaldandi speileka úr faginu til annarra landa.

Lágt árangurshlutfall sjóða í sviðslistum

Það er mikið gleðiefni að til standi að efla áfram launasjóði listafólks. SL vill hins vegar benda á að árangurshlutfall launasjóðs sviðslistafólks er áberandi lágt samanborið við launasjóði í öðrum listgreinum, en við úthlutun 2023 var árangurshlutfall launasjóðanna, skv. útreikningum Rannís, eftirfarandi:

  • Launasjóður rithöfunda 35%%
  • Launasjóður myndlistarmanna 23%
  • Launasjóður tónskálda 16%
  • Launasjóður tónlistarflytjenda 21%
  • Launasjóður hönnuða 18%
  • Launasjóður sviðslistafólks 12% (Tala reiknuð skv. forsendum Rannís v. útreikning annarra launasjóða, m.v. 6 styrkþega í hverjum hópi, en það er meðaltal úr umsóknum síðasta árs)

Að auki verður að benda á að í núverandi umhverfi fær sviðslistafólk úthlutað á bilinu 1-2 mánuð á ári pr. listamann sem á annað borð hlýtur stuðning. Alvanalegt er að fólk fái færri mánuði en það sækir um og það er nánast óþekkt að laun fáist fyrir undirbúning verkefna. Þetta er í trássi við lög um listamannalaun (lög nr. 57, 27. apríl 2009, 12. gr.), sem gera ráð fyrir að listamenn hljóti 6 mánuði minnst en í undantekningartilvikum 3, en öllu verra er að hér er augljóslega um alvarlegt vanmat á framlagi listamanna að ræða, sem ekki leiðir af sér faglegt starfsumhverfi.

Sjálfstætt starfandi sviðslistafólk með 30-50% lægri laun

Íhaldssamir útreikningar SL gefa til kynna að launaþörf þeirra verkefna sem framleidd eru fyrir styrki úr Sviðslistasjóði og launasjóði sviðslistafólks sé langt undir öllum grunnlaunum. Núverandi fjármunir og fyrirkomulag gera kröfu um að listamenn gefi minnst 30% og allt að 50% vinnu sinnar, sem er ekki ásættanlegt að neinu leyti, að ekki sé minnst á takmörkuð áunnin lífeyrisréttindi, sem eru vissulega aðstejandi vandamál.

Það hefur ríkt sátt við kjarasamningagerð við stofnanaleikhúsin (Þjóðleikhús, Borgarleikhús og Leikfélag Akureyrar) að listafólk njóti sömu eða svipaðra kjara við þessar stofnanir. Sömu rök eiga við sjálfstæða hópa, enda um sama listafólk að ræða og því nauðsynlegt að leiðrétta stöðuna svo að sviðslistafólk starfi ekki við mun lakari kjör sjálfstætt en þegar það starfar innan annarra atvinnuleikhúsa. Það er bæði vafasmt út frá jafnræðissjónarmiðum og ekki listalífi í landinu til framdráttar að Ríkið, sem aðili að kjarasamningum um fjölda starfa í geiranum, sneiði hjá gerðum samningum þegar veitt eru laun vegna sömu starfa í gegnum Sviðslistasjóð. Framtíðarsýnin þarf því að vera sú fjármunir til sjóðsins verði auknir t.a. geta mætt kjörum skv. gildandi kjarasamningum.

Sjálfstæða senan fyrst og fremst nýsköpun

Stærsti hluti nýsköpunar í íslensku leikhúsi sprettur upp úr starfi sjálfstæðra sviðslistahópa. Verkefni sjálfstæðu sviðslistahópanna eru nær undantekningalaust nýskrif og frumsköpun; ný íslensk sviðsverk, ný íslensk dansverk, nýjar íslenskar barnasýningar, sirkus, ópera o.fl. o.fl.

Það er á ábyrgð ríkisins að gera sjálfstætt starfandi sviðslistafólki kleift að vinna vinnuna sína með reisn og sæmd til jafns við annað sérmenntað fagfólk í atvinnugreininni. Sjá listafólk með reynslu sér ekki fært að starfa sjálfstætt tapast þekking, mannauður og gæði. Með lítilli innspýtingu getur íslenska ríkið veitt stóraukið svigrúm til faglegrar listsköpunar og með því skapað hér heilbrigðan og fjölbreyttan starfsvettvang.

Jákvæð áhrif opinberrar fjármögnunar í sjálfstæðum sviðslistum

  • Eflir Ísland sem sjálfstæða menningarþjóð.
  • Stendur vörð um sjálfræði listafólks.
  • Eykur gæði sviðlista.
  • Eykur hagkvæmni sviðslista.
  • Styrkir ímynd lands og þjóðar á alþjóðavettvangi.
  • Skilar auknum menningarlegum gæðum fyrir almenning.

Til að geta sinnt hlutverki sínu sómasamlega þyrfti Sviðslistasjóður, auk launasjóðs sviðslistafólks, að hafa minnst 500 millj.kr. til úthlutunar árlega. Sú upphæð er sambærileg þeirri sem SL lagði til í stefnu sinni árið 2010 (350 millj.kr. framreiknað að verðlagi, alls 586 millj.kr). Kröfur SL eru því óbreyttar í þessu tilliti.

  • Það er von stjórnar SL að fjárlaganefnd geri þá breytingu á frumvarpinu að framlag til sviðslistasjóðs verði hækkað í það minnsta í 161 millj.kr, eða til jafns við þá upphæð sem veitt var til starfseminnar 2023.
  • Kröfur SL nú um 54,1 millj.kr. hækkun á fjárframlögum 2024 til starfsemi atvinnuleikhópa eru hóflegt skref í þá átt að færa framlög til sjálfstæðs sviðslistafólks í átt að raunþörf geirans.




Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.



Fréttir

Fréttir og tilkynningar úr starfi sjálfstæðra sviðslistahópa. Sendið okkur póst á leikhopar@leikhopar.is

Aðalfundur MTB

Aðalfundarboð Menningarfélagsins Tjarnarbíós

Dagskrá aðalfundar MTB

1.   Skýrsla stjórnar um liðið starfsár

2.   Reikningar félagsins – Uppgjör leikárs ’23-‘24

3.   Lagabreytingar – Sjá að neðan

4.   Kosning stjórnar...

Launatölur vegna umsókna í Sviðslistasjóð og listamannalaun 2024

Nokkuð er um spurningar þegar kemur að launatölum í umsóknum. Áhersla skal lögð á sanngjarna þóknun miðað við vinnuframlag og SL hefur lagt áherslu...

Listafólk í fókus – Taktu þátt

Ný netfundaröð EAPIA „Listafólk í fókus“ hefst fimmtudaginn 9. nóvember.

EAIPA – Evrópusamtök sjálfstæðs sviðslistafólks efnir til spennandi dagskrár og beinir sjónum sínum að listafólki, aðbúnaði þess og aðstöðu með...