Staða sjálfstætt starfandi sviðslistafólks


Posted on september 16th, by leikhopar1 in Frettir. No Comments

0 Flares Filament.io 0 Flares ×

Bandalag sjálfstæðra leikhúsa-SL kallar eftir tafarlausum björgunaraðgerðum stjórnvalda. Staða sjálfstætt starfandi leikhúsa og sviðslistahópa hefur verið afar slæm frá upphafi faraldursins og nú þegar annað COVID-haust gengur í garð eru áhyggjur listamanna jafnvel enn meiri en áður.

„Þeir sem hafa tekið það á sig fyr­ir sam­fé­lagið að loka sinni starf­semi hljóta að eiga skilið að fá stuðning frá sam­fé­lag­inu.“ Þetta sagði Bjarni Bene­dikts­son fjár­málaráðherra í ræðustól á Alþingi í apríl 2020. Nú rúmum 16 mánuðum síðar eru sjálfstætt starfandi leikhús og sviðslistahópar enn að bíða eftir stuðningi.

Staða lítilla leikhúsa og sjálfstæðra sviðlistahópa er grafalvarleg í kjölfar lokana og íþyngjandi samkomutakmarkana síðastliðina 18 mánuði. Stjórn SL og framkvæmdastjóri hafa frá því að faraldurinn skall á bent ráðafólki á að skilyrði sértækra stuðningsaðgerða vegna COVID-19 útiloka nær alla sjálfstæða sviðslistahópa vegna þess að um rekstur þeirra eru yfirleitt stofnuð almenn félög.

Þessir aðilar voru t.a.m. útilokaðir frá hlutabótaleiðinni mjög snemma og hafa ekki getað sótt um lokunar- eða viðspyrnustyrki heldur. Enn hefur ekkert verið gert til að bæta stöðu þessa hóps og við okkur horfir raunverulegur möguleiki á alvarlegum spekileka og atgervisflótta úr faginu. Það getur ekki verið viljaverk stjórnvalda að valda skemmdarverkum á íslenskum sviðslistum en komi ekki til bjargráða verður útkoman listrænt og menningarlegt tjón.

Það voru sár vonbrigði að lög til viðspyrnustyrkja og tekjufallsstyrkja hafi verið afgreidd á Alþingi án þeirra örfáu breytinga sem til þurfti svo að lítil leikhús og atvinnusviðslistahópar gætu þegið þá aðstoð sem þeim lögum var ætlað að veita. Þegar allar dyr höfðu verið okkur lokaðar var það salt í sárin að sjá sett lög um sérstakar greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónaveirufaraldurs án þess að taka atvinnufélög í sviðslistum undir þann hatt eins og við bentum á og báðum um.

Vandi atvinnufélaga í geiranum varð til í mars 2020 og hefur bara vaxið síðan. Reynslan hefur sýnt að þær efnahagsaðgerðir sem stjórnvöld hafa gripið til í því skyni að bregðast við áhrifum heimsfaraldursins hafa ekki nýst menningarfélögum nema að mjög litlu leyti. Aukinn stuðningur við framþróun og vöxt greinarinnar hefur um langa hríð verið helsta keppikefli SL, enda hefur nýliðun í stéttinni verið mikil og afköstin og framlagið í takt við það. Helsta viðbragð stjórnvalda til að mæta vanda sjálfstætt starfandi sviðslistafólks hefur verið tímabundin innspýting fjár í launa- og verkefnasjóði. Nokkuð sem listamenn hafa lengi kallað eftir og óskandi að hlustað væri á raddir þeirra um að þessi viðbót verði til frambúðar. Þessi ágæta aðgerð er hins vegar eingöngu til nýrra verkefna og hjálpar ekki við skuldbindingar sem þegar var búið að stofna til. Fjöldi sýninga sem flytja átti í faraldrinum var frestað, jafnvel oft, sviðslistahóparnir urðu af tekjum í tengslum við þá viðburði, til viðbótar við þann aukakostnað sem lokanir og takmarkanir höfðu í för með sér við að halda verkefnum við, æfa þau upp og kynna að nýju o.s.frv..

Við stefnum nú inn í annan vetur þar sem sviðslistafólk þarf að sæta takmörkunum vegna faraldursins. Þeir aðilar sem náðu að þreyja síðasta vetur gerðu það af eigin rammleik, með sárum niðurskurði og rekstartapi. Þessir aðilar munu ekki lifa af annan vetur nema til komi sérstakur fjárstuðningur þeim til handa. Þetta eru fáir aðilar og fjármunirnir sem þeir þurfa á að halda eru smávægilegir í öllu samhengi, en bráðnauðsynlegir svo að þeir geti lifað þetta ástand af og verði til staðar til að sinna sínu hlutverki, sem er að auðga listalíf landi og þjóð til ánægju og heilla.

Stjórn SL skorar því á stjórnvöld að koma fram með úrræði til að mæta því þunga höggi sem þvingandi samkomutakmarkanir hafa verið og eru fyrir þennan hóp sviðslistafólks.

Virðingarfyllst,
f.h. stjórnar Bandalags sjálfstæðra leikhúsa-SL,
Orri Huginn Ágústsson, formaður
& Friðrik Friðriksson, framkvæmdastjóri

Greinin birtist í Morgunblaðinu 16. september 2021





Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.



Fréttir

Fréttir og tilkynningar úr starfi sjálfstæðra sviðslistahópa. Sendið okkur póst á leikhopar@leikhopar.is

Aðalfundur MTB

Aðalfundarboð Menningarfélagsins Tjarnarbíós

Dagskrá aðalfundar MTB

1.   Skýrsla stjórnar um liðið starfsár

2.   Reikningar félagsins – Uppgjör leikárs ’23-‘24

3.   Lagabreytingar – Sjá að neðan

4.   Kosning stjórnar...

Launatölur vegna umsókna í Sviðslistasjóð og listamannalaun 2024

Nokkuð er um spurningar þegar kemur að launatölum í umsóknum. Áhersla skal lögð á sanngjarna þóknun miðað við vinnuframlag og SL hefur lagt áherslu...

Listafólk í fókus – Taktu þátt

Ný netfundaröð EAPIA „Listafólk í fókus“ hefst fimmtudaginn 9. nóvember.

EAIPA – Evrópusamtök sjálfstæðs sviðslistafólks efnir til spennandi dagskrár og beinir sjónum sínum að listafólki, aðbúnaði þess og aðstöðu með...