Eitt ár af COVID í sviðslistum


Posted on apríl 28th, by leikhopar1 in Frettir. No Comments

0 Flares Filament.io 0 Flares ×

SL hefur tekið saman yfirlit yfir stöðuna í sviðslistum á einu ári í COVID.

Heilt ár af íþyngjandi samkomutakmörkunum

  • Leikhúsin þurftu að loka dyrum sínum í samtals 4 ½ mánuð.
  • Íþyngjandi takmarkanir á sýningarhaldi með nándarmörkum og takmörkuðum áhorfendafjölda telja alls tæpa 4 mánuði á tímabilinu.
  • Vægar takmarkanir á sýningarhaldi voru í tæpa 4 mánuði alls og þá lengst yfir sumarið 2020 en þá er leikhússtarfsemi í algjöru lágmarki.

Aukning í samkeppnissjóðina fyrir sjálfstæðar sviðslistir

Ríkisstjórnin brást við áhrifum faraldursins að vori með aukaúthlutun í gegnum samkeppnissjóðina Sviðslistasjóð og Listamannalaun. Í maí var 95 milljónum veitt í ný verkefni og í lok júní var 71 mánuði veitt úr launasjóði listamanna til sviðslistafólks.

Í janúar 2021 juku stjórnvöld framlag til sjóðsins um 37 milljónir og veitti Sviðslistasjóður 132 milljónum til 30 atvinnusviðslistahópa leikárið 2021. Sömuleiðis kom til aukning á listamannalaunum um 117 mánuðum til sviðslistafólks með alls 307 mánaðarlaunum.

Þessi aukning er gríðarlega þörf og löngu tímabær innspýting í erfitt og ótryggt starfsumhverfi listafólks. Það er vonandi að stjórnvöld bregðist við ákalli listamanna um að þessi aukning sé til frambúðar. Það er vert að taka það fram að þó áðurnefnd aukaúthlutun hafi verið hjálpleg þá var hún til nýrra verkefna og hafði lítið að segja um þann vanda sem yfirstandandi verkefni lentu í og er enn óleystur.

Covid stuðningur við leikhúsin

Öll leikhús landsins hafa upplifað gríðarlegt tekjutap og þurft að segja upp starfsfólki á árinu. Verkefnum hefur fækkað og mörg verkefni verið flutt á milli ára.

Til að koma til móts við bága stöðu leikhúsanna hafa ríki og borg lagt aukið fé til bæði Þjóðleikhússins og Borgarleikhússins. Reykjavíkurborg lagði 78 milljónir til Borgarleikhússins og ríkisstjórnin lagði til 350 milljónir í viðbótarframlag til Þjóðleikhússins til að bæta að hluta tap leikhúsanna í covid. Tjarnarbíó heimili sjálfstæðra sviðslista fékk svo 5 milljónir í covid stuðning frá Reykjavíkurborg.

Aðrar aðgerðir ríkisstjórnarinnar

Ríkisstjórnin hefur staðið fyrir margvíslegum aðgerðarpökkum til bjargar atvinnulífinu og einstaklingum, þar á meðal eru: hlutabótaleið, lokunarstyrkir, tekjufalls- og viðspyrnustyrkir. Þessar aðgerðir hafa því miður ekki nýst sjálfstætt starfandi sviðslistafólki og hópum nema að mjög litlu leyti. Þessar aðgerðir hafa verið takmarkaðar við fyrirtæki og félög sem bera ótakmarkaða skattskyldu og því ekki nýst menningarfélögum (leikhópum) sem reka óhagnaðardrifna starfsemi.

Endurteknar frestanir

Margir sjálfstæðir sviðslistahópir hafa orðið illa fyrir barðinu á covid faraldrinum. Þannig eru dæmi um að þurft hafi að fresta áætluðum frumsýningum, jafnvel oft og mörgum sinnum t.a.m. frumsýningu Steinunnar Ketilsdóttur danshöfundar á Verki nr. 2. Hún var fyrst áætluð á Vorblóti Tjarnarbíós í apríl 2020, síðan á Reykjavík Dance Festival í nóvember 2020 og svo aftur á áætluðu Vorblóti Tjarnarbíós í apríl á þessu ári. Aðrir hópar hafa þurft að stöðva sýningarhald oftar en einu sinni t.d. Reykjavík Ensemble sem rétt náði að frumsýna Polishing Iceland fyrir lokun í mars 2020. Þau héldu áfram sýningum loks í lok september en neyddust til að hætta aftur stuttu síðar vegna lokunar. Sömu sögu er að segja um Kvenfélagið Garp sem frumsýndi Er ég mamma mín? rétt fyrir lokanir í mars 2020 og hætti þá sýningum fyrir fullu húsi. Sýningin hefur nú verið æfð upp tvisvar sinnum en ekkert orðið af sýningum vegna lokana. Leikhópurinn Lotta hefur einnig hlotið mikinn fjárhagslegan skaða af samkomutakmörkunum og stendur á barmi galdþrots. Þá eru ótalin rótgróin félög s.s. Gaflaraleikhúsið, Kómedíuleikhúsið o.fl. sem hafa beðið fjárhagslegan hnekki vegna ástandsins.

Þörf á sértækum aðgerðum fyrir sjálfstætt sviðslistafólk

Það að þessi félög hafi ekki aðgang að bjargráðum ríkisstjórnarinnar vegna covid er sérlega slæmt þar sem að í öllum tilvikum er um að ræða félög sem eiga enga sjóði í að sækja. Starfsemi þeirra er óhagnaðardrifin og allar tekjur þeirra fara í að greiða kostnað við viðburði og vega launagreiðslur þar vitanlega þyngst. Markmið ríkisstjórnarinnar með aðgerðum sínum hefur verið að þeir sem hafa þurft að sæta íþyngjandi sóttvarnaraðgerðum séu í stakk búnir að hefja starsemi að nýju með eðlilegum hætti þegar aðstæður skapast. Það er hins vegar einsýnt að þessir hópar komi ekki allir til með að standa af sér storminn nema til komi sértækar aðgerðir þeim til stuðnings. Þá hefur ekki verið minnst á þær andlegu afleiðingar sem það hefur þegar fólk getur ekki sinnt vinnu sinni í svo langan tíma.

Sjálfstæðar sviðslistir áberandi í faraldrinum

Þrátt fyrir samkomutakmarkanir og stöðvun sýningarhalds þá hafa sjálfstæðir sviðslistahópar verið hvað atkvæðamestir í sýningarhaldi meðan á faraldrinum hefur staðið. Að venju eru flestar frumsýningar á hjá sjálfstæðum sviðslistahópum. Sjálfstæðir sviðslistahópar hafa frumsýnt 15 af 28 sýningum vetrarins þar af 6 sjálfstæðar barnasýningar. Þrátt fyrir það má gera ráð fyrir að aðsókn hafi verið töluvert lakari en í meðalári sökum takmarkana.

Með hækkandi sól, bólusetningum og afléttingum má þó reikna með blómlegu starfi á komandi leikári. Þrjátíu sviðslistahópar fengu verkefnastyrki á árinu og því stefnir í metár fyrir sjálfstæðar sviðslistir.





Comments are closed.



Fréttir

Fréttir og tilkynningar úr starfi sjálfstæðra sviðslistahópa. Sendið okkur póst á leikhopar@leikhopar.is

Listafólk í fókus – Taktu þátt

Ný netfundaröð EAPIA „Listafólk í fókus“ hefst fimmtudaginn 9. nóvember.

EAIPA – Evrópusamtök sjálfstæðs sviðslistafólks efnir til spennandi dagskrár og beinir sjónum sínum að listafólki, aðbúnaði þess og aðstöðu með...

Umsögn SL um fjárlög 2024

Hér að neðan er birt umsögn SL um fjárlög 2024, en einnig er hægt að nálgast umsögnina á vef Alþingis hér.

Sjálfstæðu leikhúsin óska eftir:

●...

Sjálfstæðar sviðslistir í Evrópu – Stofnun og afkoma vaxandi geira

Út er komin yfirgripsmikil rannsókn um sjálfstæðar sviðslistir í Evrópu Independent Performing Arts in Europe: Establishment and Survival of an Emerging Field. Bókin er...