Sjálfstæðar sviðslistir á tímum samkomubanns


Posted on mars 19th, by leikhopar1 in Frettir. No Comments

0 Flares Filament.io 0 Flares ×
Salur Tjarnarbíós – Mynd: Geiri X

Þegar ljóst var að sett yrði á samkomubann var sett af stað vinna um allt samfélagið til að meta áhrif þess og nauðsynleg viðbrögð við því. SL hefur unnið að því að hugsað verði sérstaklega um sjálfstætt starfandi sviðslistafólk í þessu samhengi.

Ákvörðun stjórnvalda um samkomubann hefur augljóslega gríðarleg áhrif á starfsgrundvöll alls sjálfstætt starfandi sviðslistafólks.  Á svipstundu hefur fótunum verið kippt undan okkur, leikhúsin neyðst til að loka dyrum sínum svo leiksvið og áhorfendabekkir standa auðir. Þeir listamenn sem starfa við veislustjórnun eða annað tengt veisluhöldum og viðburðastjórn verða af öllum tekjum af slíku. Að auki fellur mikil kennsla niður og námskeiðahald sömuleiðis.  Þá er ótalinn sá hópur sem starfar utansviðs tengt sýningarhaldi s.s ljóshönnuðir, tæknifólk, leikmynda- og búningahönnuðir, starfsfólk í miðsölu og fleiri.

Gróf samantekt SL sýnir að niður falla að lágmarki 20 sviðsverk sjálfstæðra hópa á meðan samkomubanni stendur, með niðurfellingu á 83 sýningum. Má reikna með heildar miðasölutapi á bilinu 35 – 40 milljóna vegna þess.  Þessar tölur eiga aðeins við um þann tíma sem áætlað er að samkomubann standi yfir. Áhrifa Covid-19 var þó farið að gæta fyrr með dvínandi miðasölu frá mars byrjun og auknum afbókunum þegar nær dró miðjum mars. Óvissa ríkir um lengd samkomubannsins og hve lengi áhrifa þess mun gæta eftir að því verður aflétt.  Þá má leiða líkur að því að landsmenn verði tregir fyrst um sinn til að koma saman á ný í stórum hópum.

Samkomubannið hefur gjörsamlega lamað Tjarnarbíó heimili sjálfstæðra sviðslista. Rúm 60% af rekstrarfé Tjarnarbíós þurfa að koma frá miðasölu- og barveltu.  Það er því ljóst að leikhúsið við Tjörnina þarf á hjálp að halda í þessu hamfaraástandi og það er von SL að Reykjavíkurborg, eigandi hússins og aðalstyrktaraðili geti rétt út hjálparhönd á meðan ástandið varir.

Sjálfstæðu Leikhúsin (SL) vinna náið með fulltrúum Sviðslistasambands Íslands (SSÍ) og Bandalags Íslenskra Listamanna (BÍL) að viðbrögðum við þessu áfalli.  Félag Íslenskra Leikara hefur sent félagsmönnum upplýsingar um atvinnuleysisbætur og aðgerðir. FÍL hvetur félaga sína til að sækja strax um bætur því hver dagur skiptir máli.  SL á fund fljótlega með Menningarmálaráðherra og fær tækifæri til að upplýsa um stöðuna og koma með tillögur að viðbrögðum og úrbótum. Stjórn SL tók strax saman skjal um stöðuna og mögulegar aðgerðir. Þessu skjali hefur þegar verið komið á framfæri við Menningarmálaráðuneytið. Skjalið í heild sinni má sjá hér að neðan. Þá eru fleiri hópar meðvitaðir um viðkvæma stöðu sjálfstætt starfandi listafólks og tala máli þessa hóps við stjórnvöld s.s. félag leikstjóra á Íslandi, BHM og fleiri.

SL hvetur allt sviðslistafólk til að standa saman á þessum undarlegu tímum, deila áhyggjum sínum en ekki síður tillögum til lausna. Á sama tíma gerum við allt sem í okkar valdi stendur til að sviðslistafólki í þessari viðkvæmu stöðu verði tryggð bjargráð á meðan þetta ástand varir. Áfram SL.

Minnisblað stjórna SL og MTB

Tap vegna veirunnar: 

*Sjálfstætt starfandi sviðslistamenn verða fyrir augljósu tapi af sýningum og viðburðum sem þarf að aflýsa vegna samkomubanns. Til viðbótar við það hefur fólk orðið af tekjum í aðdraganda banns. Auk þess munu eftirköst af banninu hafa ófyrirséðar afleiðingar sem munu vara í einhvern tíma eftir að á banninu verður slakað eða því aflétt.

 *Þannig verða sjálfstætt starfandi listamenn fyrir tekjutapi sem ómögulegt er að ákvarða vegna t.a.m. miða sem aldrei voru keyptir og bókana sem aldrei verða, en hefðu við eðlilegar kringumstæður komið til. *Þá standa sjálfstætt starfandi listamenn frammi fyrir tekjumissi vegna fleiri hluta en beinu tapi af sýningum sem falla niður. Við það bætist t.d. kennsla, viðburðastjórnun o.fl. 

*Alger óvissa er um það hversu lengi áhrif veirunnar munu hafa heftandi/lamandi áhrif á tekjustreymi sjálfstætt starfandi listamanna. Enda má leiða líkur að því að fólk muni vera ragt við að sækja fjöldaviðburði í einhvern tíma eftir að samkomubanni verður aflétt. 

*Sjálfstætt starfandi listafólk er upp til hópa verktakar, ekki endilega af því að það velur það sjálft, heldur vegna þess að verkkaupar setja það í þá stöðu, þ.m.t. ríkið í gegnum listamannalaun. Þetta hefur staðið sjálfstætt starfandi listafólki fyrir þrifum lengi þegar kemur að hlutum á borð við fæðingarorlof, atvinnuleysisbætur, lánshæfi o.fl. Það er því mjög slæmt ef kerfið sem á að grípa fólk getur ekki gert það vegna þessa. Óskandi er að þessir hlutir verði teknir upp og endurhugsaðir til framtíðar, en nauðsynlegt er að gera ráð fyrir því að þessum hópi verði tryggðar atvinnuleysisbætur eða aðrar leiðir fundnar til að fleyta þessum hópi í gegnum þessa erfiðu tíma. 

Hugsanlegar leiðir til að bæta upp tap eða tryggja fólki tekjur: 

*Atvinnuleysisbætur og/eða borgaralaun. Sértaklega þarf að athuga að fólk sem telur fram árlega, frekar en að skila reglubundið greiðslum mánaðarlega, hafi rétt á bótum og að þær verði ekki ákvarðaðar af mánaðarlegu framtali síðustu mánuði heldur t.a.m. tekjum á ársbasis m.v. síðasta tekjuár. 

*Ein leið væri að koma á fót sjóði til að bæta fólki upp tap vegna viðburða sem féllu niður vegna samkomubanns og/eða almennrar hræðslu vegna veirunnar. Í því samhengi er nauðsynlegt að horfa til þess að tap varð á viðburðum vikurnar fyrir samkomubann vegna vaxandi ótta almennings við að sækja fjölmenna viðburði, þ.e. umtalsvert færri miðar seldust heldur en hefðu gerst við eðlilegar aðstæður. Þá má gera ráð fyrir að tekjur verði jafnframt minni en ella eftir að samkomubanni verður aflétt og það muni taka einhvern tíma fyrir fólk að treysta og þora að mæta aftur á fjöldaviðburði, með tilheyrandi tekjumissi listamannanna. 

*Önnur leið væri sú að ríki og sveitarfélög opni aftur fyrir umsóknir í menningarsjóði (þ.e. listamannalaun, leiklistarráð, menningarstyrki sveitarfélaga o.þ.h.). Þetta myndi skapa tekjur fyrir listafólk til að vinna að nýjum verkefnum, í stað þess að reyna að bæta upp tap vegna verkefna sem falla niður. 

*Meðan á samkomubanni stendur er hugsanlegt að streyma viðburðum og hafa einhverjir brugðið á það ráð nú þegar. Þessi leið er vandkvæðum bundin fyrir sjálfstætt starfandi og einyrkja. Sem dæmi má nefna að það þarf hýsingu og miðla til að streyma efninu auk þess sem ekki er augljóst hvaða tekjstreymi getur verið af því til listamannsins.





Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.



Fréttir

Fréttir og tilkynningar úr starfi sjálfstæðra sviðslistahópa. Sendið okkur póst á leikhopar@leikhopar.is

Listafólk í fókus – Taktu þátt

Ný netfundaröð EAPIA „Listafólk í fókus“ hefst fimmtudaginn 9. nóvember.

EAIPA – Evrópusamtök sjálfstæðs sviðslistafólks efnir til spennandi dagskrár og beinir sjónum sínum að listafólki, aðbúnaði þess og aðstöðu með...

Umsögn SL um fjárlög 2024

Hér að neðan er birt umsögn SL um fjárlög 2024, en einnig er hægt að nálgast umsögnina á vef Alþingis hér.

Sjálfstæðu leikhúsin óska eftir:

●...

Sjálfstæðar sviðslistir í Evrópu – Stofnun og afkoma vaxandi geira

Út er komin yfirgripsmikil rannsókn um sjálfstæðar sviðslistir í Evrópu Independent Performing Arts in Europe: Establishment and Survival of an Emerging Field. Bókin er...