Sjálfstæða senan situr eftir


Posted on janúar 22nd, by leikhopar1 in Frettir. No Comments

0 Flares Filament.io 0 Flares ×

Grein um stöðu sjálfstæðra sviðslista eftir Söru Marti Guðmundsdóttur og Klöru Helgadóttur meistarnema í Menningarstjórnun við Háskólann á Bifröst sem birtist í Morgunblaðinu 21. janúar 2020

Samkvæmt hagtölum úr Nordic Statistic database eru Íslendingar duglegastir allra Norðurlandaþjóða að sækja leikhús. Til að mynda sótti metfjöldi Þjóðleikhúsið leikárið 2018 til 2019 eða um 118 þúsund manns. Því er ekki að undra hversu mikil gróska er í sviðslistum hérlendis. Þrátt fyrir þennan metfjölda áhorfenda í leikhúsum á Íslandi væri ekki hægt að halda uppi stofnanaleikhúsunum með miðasölunni einni saman – og því síður sjálfstæðri leikhópastarfsemi atvinnuleikara nema með styrkjum frá ríki og borg.
Sviðsverk á Íslandi eru framleidd annars vegar af opinberum stofnunum og hins vegar af sjálfstæðum atvinnuleikhópum. Þegar talað er um sjálfstæða leikhópa er hér ekki átt við áhugamannaleikhópa heldur hópa sem samanstanda af atvinnufólki, menntuðu sviðslistafólki. Opinberu sviðslistastofnanirnar eru á fjárlögum ríkis og sveitarfélaga en það eru Þjóðleikhúsið, Borgarleikhúsið, Leikfélag Akureyrar, Íslenska óperan og Íslenski dansflokkurinn. Sjálfstæðu atvinnuleikhóparnir geta hins vegar eingöngu sótt um styrk einu sinni á ári til Leiklistarráðs til þess að setja upp sýningu. Þar sem sjálfstæðu leikhóparnir fá aðeins einn framleiðslustyrk á ári – ef þeir eru heppnir – er ljóst að enginn hefur efni á að halda úti sjálfstæðum leikhópi allt árið um kring. Þrátt fyrir þetta frumsýndu sjálfstæðu leikhóparnir 76 ný leikverk á móti 58 leikverkum stofnanaleikhúsanna leikárið 2014-2015 skv. nýlegustu samantekt Hagstofunnar, eða 57% allra sviðsverka það leikárið.

Fjölgun innan sviðslistageirans
Sviðslistamönnum hefur fjölgað mjög á síðustu árum en það má að einhverju leyti rekja til nýrra deilda í Listaháskóla Íslands; dansbraut og sviðshöfundabraut. Með nýrri tækni og margmiðlun sem er notuð í æ meira mæli í sviðsverkum eru fleiri listamenn með ákveðna sérþekkingu að bætast í flóru sviðslistamanna, t.a.m. vídeóhönnuðir, og þar á ofan hafa bæst við nýir óperuhópar og sirkuslistafólk í hóp sjálfstæðra sviðslistamanna. Einnig hafa orðið til atvinnuleikhópar á landsbyggðinni að undanförnu. Allt er þetta til marks um þróun greinarinnar og mikið ánægjuefni hversu mikil gróska er í sviðslistunum, en það vantar alveg að gera ráð fyrir þessum ört stækkandi fjölda í sjóð sviðslistamanna.
Þegar skoðaðar eru tölur frá Rannís um styrkveitingar til sviðslistaverkefna síðustu fimm ára sést hve mikill fjöldi sjálfstæðra leikhópa sækir um styrk og hversu fáir hópar hljóta hann. Að meðaltali eru það einungis 18% þessi síðustu fimm ár. Því er augljóst að verulega þarf að auka fjárveitingu til sviðslistaráðs til að rétta úr þessu ójafnvægi.

„Listamannalaun“
Áður en rætt er um listamannalaun ber að leiðrétta þann misskilning að listamannalaun séu laun, og er það eflaust rangnefninu um að kenna. Listamannalaun eru verktakagreiðslur og því þarf viðkomandi að standa skil á öllum opinberum gjöldum af þeirri upphæð, greiða í lífeyrissjóð bæði hlut starfsmanns og hlut atvinnurekanda, tryggingagjald auk annarra skatta og standa straum af eigin orlofi, stéttarfélagsgreiðslum og veikindum, komi þau upp. Starfslaun listamanna eru 407.413 kr. á mánuði, en því fer fjarri að sú upphæð renni beint og óskipt í vasann.

Skipting milli ólíkra greina
Ef skoðaðar eru úthlutanir milli ólíkra listgreina og fjöldi mánaða sem hver listgrein hlýtur má sjá að rithöfundar fá samtals 555 mánuði, hönnuðir 50 mánuði, myndlistarmenn 435 mánuði, tónlistarflytjendur 180 mánuði, tónskáld 190 mánuði og sviðslistamenn samtals 190 mánuði. Sviðslistafólk er eina listgreinin sem sækir um sem hópur. Allir aðrir listamenn sækja um sem einstaklingar. Leikhúsið krefst samstarfs margra og í því mætast ólík listform. Sem dæmi er kannski hópur sem samanstendur af sjö sviðslistamönnum sem fær greidd listamannalaun í 14 mánuði, og er það jafnvel í hærri kantinum miðað við það sem hópar hljóta almennt. Hópurinn þarf þó að deila með sér þeirri upphæð. Í ofanálag fá aðrir listamenn sem koma að leiksýningum, til að mynda tónlistar- eða myndlistarmenn, úthlutað úr þessum sama sjóði.

Sviðslistir eru samfélaginu einstaklega mikilvægar og að þeim ber að hlúa vel. Sjálfstæða senan samanstendur af atvinnulistamönnum og er leiðandi vettvangur fyrir frumsamin sviðsverk. Í leikhúsi sameinast margar listgreinar; leiklist, dans, myndlist og tónlist, og svo gefur leikhúsið ritlistinni vængi. Því er leikhúsið öflugur liður í verndun tungumálsins auk þess sem það er íslenskri menningu mikilvægt, hvort sem er sem afþreying og skemmtun eða vettvangur nýrra hugmynda, samfélagsrýni og þjóðarspegill á hverjum tíma. Flest erum við sammála um mikilvægi menningar og lista því framlag okkar í þeim efnum er oftar en ekki það sem ber hróður okkar á erlendri grundu og gerir okkur að þjóð meðal þjóða.
Ef við ætlum að hlúa að þeirri gróskumiklu starfsemi sem á sér stað hjá sjálfstæðum leikhópum á Íslandi og mæta vaxandi fjölda þeirra sviðslistamanna sem hér búa og starfa þarf hið opinbera að rétta úr þessari skekkju.





Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.



Fréttir

Fréttir og tilkynningar úr starfi sjálfstæðra sviðslistahópa. Sendið okkur póst á leikhopar@leikhopar.is

Aðalfundur MTB

Aðalfundarboð Menningarfélagsins Tjarnarbíós

Dagskrá aðalfundar MTB

1.   Skýrsla stjórnar um liðið starfsár

2.   Reikningar félagsins – Uppgjör leikárs ’23-‘24

3.   Lagabreytingar – Sjá að neðan

4.   Kosning stjórnar...

Launatölur vegna umsókna í Sviðslistasjóð og listamannalaun 2024

Nokkuð er um spurningar þegar kemur að launatölum í umsóknum. Áhersla skal lögð á sanngjarna þóknun miðað við vinnuframlag og SL hefur lagt áherslu...

Listafólk í fókus – Taktu þátt

Ný netfundaröð EAPIA „Listafólk í fókus“ hefst fimmtudaginn 9. nóvember.

EAIPA – Evrópusamtök sjálfstæðs sviðslistafólks efnir til spennandi dagskrár og beinir sjónum sínum að listafólki, aðbúnaði þess og aðstöðu með...