LÓKAL – alþjóðleg leiklistarhátíð í Reykjavík!


Posted on september 10th, by admin in Frettir. No Comments

0 Flares Filament.io 0 Flares ×

eidurinn

LÓKAL – alþjóðleg leiklistarhátíð í Reykjavík!

28. ágúst – 1. september 2013

Leiklistarhátíðin LÓKAL er nú haldin í 6. sinn, en hún hefur verið árviss viðburður í menningarlífinu frá árinu 2008. Í ár verður boðið upp á átta leiksýningar, þar af 4 glæný íslensk verk. Erlendir gestir hátíðarinnar koma frá Finnlandi, Belgíu, Kanada og Noregi. Allt eru þetta einlægar og kraftmiklar leiksýningar sem feta einstigið á milli gamans og alvöru og svipta hulunni af þeim tækjum og tólum sem nýtast við leikhúsgaldurinn, hvort sem það eru kunnugleg meðul eða nýjasta tækni.

Verk Produksjoner (Osló) mæta til leiks með verkið Build Me A Mountain; frábæra útleggingu hópsins á leikhúsi í anda Brechts. Þessi myndræna leiksýning byggir á textum tengdum dvöl hins kunna, þýska leikhúsmanns í Finnlandi á árum síðari heimsstyrjaldarinnar. Verk Produksjoner er einn virtasti leikhópur Norðurlandanna og hefur nú tvö ár í röð hlotið norsku leiklistarverðlaunin fyrir „sýningu ársins“. Hópurinn sýndi verkið The Eternal Smile á LÓKAL 2011 við meiriháttar undirtektir.

www.verkproduksjoner.no

Í Dance For Me leikur Ármann Einarsson, þriggja barna faðir og skólastjóri, aðalhlutverkið. Ármann er 48 ára gamall, 172 sentímetrar á hæð og með bumbu. Fyrir ári síðan kom hann að máli við son sinn og tengdadóttur, Pétur Ármannsson og danshöfundinn Brogan Davison (Akureyri) og sagðist vilja láta langþráðan draum rætast; að dansa nútímadans á sviði. Ármann er ekki menntaður dansari en á unglingamet í þrístökki sem hann setti árið 1979 (það stendur enn!). Úr varð dansverk sem Ármann vill nú sýna sem víðast og á LÓKAL gefst höfuðborgarbúum færi á að upplifa þetta einlæga og bráðfyndna leikhúsverk um drauminn, sköpunarferlið og efann sem hellist yfir þegar minnst varir.

www.brogandavison.wordpress.com

Friðgeir Einarsson og félagar í leikhópnum Kriðpleir (Reykjavík) frumsýna nýtt verk í Háskóla Íslands; Lítill kall. Hér er á ferðinni undurfurðuleg kynning á glænýju námskeiði um starfsemi mannsheilans og tilhneigingu okkar til þess að forðast djúpstæðar vangaveltur um lífið og tilveruna. Friðgeir Einarsson er meðlimur í leikhópunum Ég og vinir mínirog 16 elskendur. Hann vakti mikla og verðskuldaða athygli á LÓKAL í fyrra þegar hann bauð áhorfendum heim til sín og gerði heiðarlega tilraun til þess að sannfæra þá um sögulegt gildi Háaleitishverfisins!

www.fridgeireinarsson.com

Helsinki-búinn Juha Valkeapää frumflytur verkið Executed Stories. Þetta er margræð sýning um hlutverk böðulsins í mannkynssögunni. Juha Valkeapää er framúrstefnumaður í finnsku listalífi. Hann hefur allt frá árinu 1993 komið fram í meira en eitthundrað og fjörutíu sýningum og verkefnum, í tuttugu og sex löndum. Verkefnin sem hann vinnur eru á mörkum gjörningalistar, leikhúss og tónlistar, en Juha hefur einnig unnið hljóðinnsetningar, hljóðmyndir og samið tónlist fyrir myndlistargjörninga, útvarp og leiksvið.

www.juhavalkeapaa.net

Í sýningu Theatre Replacement/Neworld Theatre (Vancouver), Winners & Losers,stíga vinirnir Marcus Youssef og James Long á svið í samkvæmisleik sem felst í því að nefna manneskjur, staði eða hluti – Tom Cruise, örbylgjuofna, regnskógana osfrv. – og færa fyrir því rök hvort viðkomandi er „flottur“ eða „ömurlegur“. Eftir því sem leiknum vindur fram tekur hann á sig sífellt persónulegri blæ, enda eru leikararnir ófeimnir við að greina aðstæður hvors annars. Og þar sem annar þeirra nýtur efnislegra gæða í lífinu, en hinn ekki, tekur keppnin brátt á sig ljóta mynd. Djarfar og eldfimar samræður sem fjalla um hin ófyrirleitnu rök kapítalismans, áhrif hans á persónuleg samskipti og upplifun okkar!

www.theatrereplacement.org
www.neworldtheatre.com

Hin stórefnilega leikhúskona Ragnheiður Harpa Leifsdóttir (Reykjavík) ákvað að kalla saman foreldra sína og systkini og setja á svið með þeim skemmtikvöld sem hún kallar Tómið. Samkoman verður í Iðnó þar sem margþættir hæfileikar fjölskyldumeðlima fá að njóta sín; rifjuð verða upp uppvaxtarár systkinanna á vesturströnd Bandaríkjanna og reynt að halda aftur af framtíðinni sem er í þann veginn að hrifsa alla á brott með sér. Þetta er hreinræktuð fjölskylduskemmtun, kærkomið tækifæri til þess að fylla upp í tómið.

www.ragnheidurharpa.com

Grindvíska atvinnuleikhúsið (Grindavík) heimsækir höfuðstaðinn í fyrsta sinn, að þessu sinni með glænýtt íslenskt verk;Óðinn – eða eitthvað eftir Guðberg Bergsson, eitt helsta núlifandi skáld okkar Íslendinga. Verkið fjallar um höfund sem á í mestu vandræðum með persónur sínar og getur ekki gert upp við sig hvort hann á að skrifa heimildarverk um Ragnheiði Brynjólfsdóttur biskupsdóttur eða tvo karlæga menn og hjúkrunarkonu á elliheimili. Tímamótasýning í íslensku leikhúsi!

www.gral.blog.is

Red Herring nefnist sýning Diederik Peeters (Brüssel). Þetta er meinfyndin röð atriða á mörkum draums og veruleika, að nokkru leyti innblásin af vænisýki Peeters sem er dauðhræddur við sóttkveikjur af öllu tagi, lofthræddur, óttast drauga og sér samsæri í hverju horni. Diederik Peeters hefur tekið þátt í sýningum listamanna á borð við Guy Cassiers, Frank Theys, Alain Platel, Jan Fabre og Ernu Ómarsdóttur, auk þess að vera listrænn ráðgjafi Lies Pauwels, Poni og Kate McIntosh. Hann hefur einnig samið sviðsverk og gert innsetningar. Hann er einn af stofnendum SPASM, gjörningaþríeykis sem kemur fram á listasöfnum og í galleríum. Sýning hans í Reykjavík er samvinnuverkefni LÓKAL og Reykjavík Dance Festival.

www.spinspin.be

Nánari upplýsingar um sýningarnar, listamenn og tilhögun hátíðarinnar má finna á heimasíðu okkar:

www.lokal.is

Allar frekari upplýsingar veitir framkvæmdastjóri LÓKAL: Sigríður Eir Zophoníasardóttir. Netfang: sigureir@gmail.com  Sími: 6968128

Allar sýningar á LÓKAL eru ýmist á ensku eða íslensku.

MIÐASALA

Sérstakur hátíðarpassi verður til sölu. Hann veitir áhorfendum tækifæri til að sjá 6 sýningar á hátíðinni á gjafverði. Maður kaupir passann, gaumgæfir dagskrána og pantar miða á þær sýningar sem vekja helst athygli manns.

Vinsamlegast athugið að panta miða í tíma þar sem áhorfendafjöldi getur verið takmarkaður á einhverjar sýninganna.

Hátíðarpassinn verður til sölu á KEX Hostel v. Barónsstíg. Tekið er við pöntunum á:

tickets@lokal.is og í s. 898 3412

Verðskrá 2013:

Hátíðarpassi – 6 sýningar (miðapantanir á sýningar): kr. 9.900.-

Stakur miði á sýningu: kr. 2.200.-

Stakur miði  á sýningu – afsláttarverð (nemendur og ellilífeyrisþegar): 2.000.-

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.Fréttir

Fréttir og tilkynningar úr starfi sjálfstæðra sviðslistahópa. Sendið okkur póst á leikhopar@leikhopar.is

Ný stjórn SL 2020 – 2021

Ný stjórn SL var kjörin á aðalfundi félagsins þriðjudaginn 30. júní í Tjarnarbíói. Stjórn skipa nú Orri Huginn Ágústsson formaður stjórnar (Á senunni),...

Ný stjórn Tjarnarbíós 20 – 21

Ný stjórn Menningarfélagsins Tjarnarbíó var kosin á aðalfundi félagsins mánudaginn 29. júní í Tjarnarbíói. Stjórn MTB skipa nú Guðmundur Felixson (Improv Ísland),...

Norrænir músíkdagar 2021 – opið fyrir umsóknir

Tónlistarhátíðin Norrænir músíkdagar verður haldin á Íslandi 21.-23. október 2021.

Þetta er ein elsta tónlistarhátíð heims, stofnuð árið 1888 og er haldin árlega til...